STOFNUN ÁRNA MAGNÚSSONAR
Handritin eru sá arfur sem hefur mesta menningarlega þýðingu fyrir íslensku þjóðina og því er full ástæða til að hanna sérhæfða byggingu í kringum handritin. Tillaga zeppelin arkitekta byggir á hönnun og arkitektúr miðalda, svo sem í Skálholti, en þar var stærsta timburbygging miðalda í Evrópu.
Við völdum að skipta stofnuninni upp í smærri byggingar sem mynda eins konar þorp utan um stærri byggingar sem hýsa handritin. Smærri byggingarnar eru klæddar viðarpanel, en þær stærri byggðar úr sjónsteypu. Svæðin á milli húsanna (götur og torg) eru yfirbyggð með léttu glerþaki, en þar verður hægt að sitja og njóta veitinga, læra eða halda óformlega fundi. Frá þessum svæðum er horft út á milli bygginganna, yfir litlar tjarnir sem veita tilfinningu fyrir ró og næði.